Snillingur með meiru :)

snillingar blogga og ég er einn þeirra, tími til kominn ..."Oft dregur bóndinn dilk á eftir sér"

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Það er að koma frí

Í dag er síðasti dagurinn minn hér á árnastofnun. Ég get eiginlega ekki sagt að ég sé mjög glöð yfir því en ég er hinsvegar glöð yfir því að vera að fara í frí. Ég ætti ekki að vera búin strax að vinna hér en ég hef náð að vinna af mér nokkra daga þannig að ég hætti fyrr, en á launum! Núna er stefnan tekin vestur á morgun með systur minni og hennar family og síðan beint í sumarbústað með hinni systur minni og hennar family. Ég kíki kannski á hina systur mína og hennar family áður en ég fer í frí eða eftir það (er þetta orðið dálítið mikið af systrum?) Fyrir þá sem ekki vita þá á ég eina systur í bænum, eina í hólminum, eina í helgafellssveit, einn bróðir í bænum, einn í húnavatnssýslunni og 1/2 bróðir í hafnarfirðinum (kannski). Alls gera þetta 12 systkinabörn og nokkur eru enn bumbulíusar en koma í ljós á árinu og bætast þá við töluna. Úff, get ekki verið svona mikil frænka!! En hinsvegar læt ég mig líklega hverfa eitthvað héðan úr þessu tölvuvædda samfélagi um stundarsakir...en þangað til næst..hafið það gott!!!
heido

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Brókarbæjarnafn

Brækur munið þið eftir þessu bæjarnafni???

Bóndinn á Hunkurbökkum átti 7 eða 9 reyktar nautshúðir í eldhúsinu. Þær voru borðaðar í móðuharðindunum og þar dó fátt fólk. Húðirnar héldu lífinu í fólkinu.

Hreinn sveitamaður

Þegar við sveitamennirnir förum í kaupstaðinn vill oft gerast ýmislegt skoplegt, ég skil Jón voða vel og sýni honum sveitalega samstöðu

Snorri lét Jón gista á Herkastalanum. Þar var óskaplega fínt klósett og fannst Jóni þetta nú eiginlega of fínt til að hafa hægðir í það. Honum var sagt að hann ætti að toga síðan í spotta sem að hékk þarna. Jón settist á klósettið og togaði í spottann. Þá fór þá ekki betur en svo að það kom vatn upp í buxurnar hans og það fór allt á flot. Ljós var þarna inni og ætlaði Jón að reyna að slökkva ljósið en það var sama hvernig hann blés ekki slokknaði það. Honum sundlaði við allan þennan blástur þannig að hann skrikaði til og lenti hann með annan fótinn ofan í klósettskálinni. Skálin var full því að hann hafði klárað allt vatnið. Frekar varð óhreint þarna inni þegar Jón var búinn að hrista fótinn sem lenti ofan í skálinni. Jón fór inn í herbergið og þar var líka ljós sem að hann gat ekki slökkt þótt að hann blési af öllum kröftum. Kvöldið eftir fór Jón með Snorra í bíó. Strákur kom inn með bakka af góðgæti og bauð honum að fá sér en Jón vildi ekkert því að það var ekki matmálstími. Þetta var ágætismynd en í henni voru löggur að elta bófa. Bófarnir fóru ofan í kjallara og stóð þá Jón upp og kallaði á löggurnar til að segja þeim hvar bófarnir hefðu falið sig.

Tæknivæðing

Þessi litla saga segir mjög mikið og fær mann til að hugsa um hvað tæknivæðingin hefur verið hröð. Heimildarmaður er fæddur árið 1884

Sagt frá framfarahug í sveitinni. Sumir voru fyrir framfarir en aðrir ekki. Árið 1903 unnu bræður það afrek í Ameríku að fljúga nokkur hundruð metra í flugvél. Fréttin um þetta kom í blöðum hingað til lands. Eitt sinn fór heimildarmaður til kirkju og í kaffi á eftir messuna. Rætt var um þessa frétt þar og sköpuðust fjörugar umræður um þetta. Sumir töldu engar líkur á því að mönnum tækist nokkurn tímann að fljúga að nokkru gagni. Einn var þó bjartsýnn á þetta og hann taldi að hægt væri að fljúga yfir á ef annar bakkinn væri hærri en hinn. Presturinn tók engan þátt í þessari umræðu. Heimildarmaður taldi að hægt væri að fljúga á milli landa og spáði hann því að sumir þeirra sem að þarna væru inni ættu eftir að sjá flugvél. Allir nema presturinn töldu heimildarmann vera vitlausan.

Hvað verður búið að finna upp eftir 100 ár?
heido

Húrra!!

Litla frænka mín, litla dúlli dúll, er farin að tala! Hún gerði sér lítið fyrir á afmælisdegi föður síns og ákvað að gleðja hann með því að spjalla við hann. Venjulega hefur hún aðeins sagt iss, iss og ha en fylgst með athygli með öllu sem að sagt hefur verið við hana. Í gærkvöldi talaði ég við hana í síma og það var frábært. Hún sagði bleyja, epli og pissa alveg rétt og það var rosalega gaman. Greinilegt að hún hefur ákveðið að hlaða inn upplýsingunum fyrst og koma þeim síðan alveg hárrétt frá sér. Ég er rosalega stolt af litlu snótinni.
heido

Strætó!

Ég er ekki ánægð með þessa nýju og góðu þjónustu strætó og í rauninni finnst mér að það eigi að hrósa þeim ráðsnjalla manni sem að fann upp þetta leiðakerfi fyrir að vera svona vitlaus...Það tók mig klukkutíma að komast heim úr Hreyfingu í gær en venjulega hefur það tekið mig 30-20 mínútur. Ég verð að játa að ég varð orðin býsna pirruð á því að bíða og lýsi bara frati á alla strætóuppfinningasnilla!!!
heido

mánudagur, júlí 25, 2005

Sólbruni!!!

Það var þreyttur og sólbrenndur!!! ferðalangur sem að skreið upp í rúm seint í gærkvöldi. En helgin var meiriháttar. Á föstudaginn var haldið á klaustur um 3 leytið og stoppað í Hveragerði og þar étinn hamborgari. Þaðan lá leiðin á Hvolsvöll þar sem áð var í sjoppunni. Teygt var úr sér í Vík og að lokum komið að Klaustri þar sem slegnar voru upp tjaldbúðir á túni leggjamjós bónda. Farið var síðan á systrakaffi, með viðkomu og innliti á öllum veitingastöðum bæjarins, dansað, spjallað og farið í leiki um kvöldið. Sumir veltu sér upp úr heyi og höfðu gaman af. Um kvöldið var kíkt á barinn og tjaldbúar gengu síðan til náða á mismunandi tímum sólarhringsins. Morguninn heilsaði okkur síðan með þungbúnu veðri, fuglasöng!! og þynnkan hafði heimsótt einhverja. Dagurinn var tekinn rólega, farið í sund og ýmsa leiki og slappað af. Við fórum í gönguferð upp á fjall sem var alveg nauðsynleg til að liðka alla stirða liði. Um kvöldið var grillað kjöt og Hulla, Finnur og Ella kíktu í heimsókn. Kíktum síðan á barinn seinna um kvöldið. Dagurinn í gær var sólríkur og eftir stendur mikill sólbruni. Við fórum í skemmtilega gönguferð upp í sönghelli og systravatn. Útsýnið var frábært ofan af fjallinu og flestir ættu að drífa sig þangað. Við lögðum af stað um 8 leytið og vorum komin í bæinn um 12 þar sem við komum við í Paradísarhellir á leiðinni. Takk fyrir frábæra helgi
heido

föstudagur, júlí 22, 2005

Helgi framundan

Það er að koma helgi. Núna er konan að halda á klaustur, þar er ætlunin að una sér vel við fuglasöng, sól og vini um þessa helgi. Við Brækur erum að fara að gleðjast með henni júllu brók þar sem sú kona er að sigla inn í 33 aldursárið á sunnudaginn. Hulla og Finnur eru líka að fara á klaustur að ná í strákana sem að hafa verið þar í góðu yfirlæti hjá ömmu sinni. Þannig að þetta lofa allt góðu hipp, hipp, húrra!!!
heido

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Til lukku!!!

Helga mín, þjóðfræðingur með meiru, var að fá svar um að henni hefði verið veitt innganga í master í þjóðfræði í Cork. Þannig að hún og Júlla mín eru þá báðar að fara í masterinn í haust, fer þetta ekki að verða spurning um að drífa sig líka? En samt sem áður til lukku þið eruð til fyrirmyndar fyrir okkur hin!!!

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Láttu hólminn heilla þig

Geggjað veður í hólminum!!!
http://www.stykk.is/webcam.html

Sumarfrí

Í gær var systir mín (sem er mesti fjallgöngugarpur íslandssögunnar) að fræða mig um leyndardóma sumarbústaðarins sem að ég er að fara í og verð viku í. Hann er staðsettur á Vestfjörðum rétt hjá Hnjóti, til að komast þangað þarf ég að fara undir brattan múla sem er víst all skelfilegur (að hennar sögn) en það versta er að til að komast þaðan þarf ég líka að fara þennan múla. Ég sé því fyrir mér að ég muni verða föst þarna í bústaðnum í heila viku því að systir mín sem ég fer með (ekki sú sama) er nokkuð vel ólétt og kærir sig lítið um lífshættur á þessum tímapunkti. Hinsvegar er mágur minn ofurhugi mikill, sællar minningar þegar við spóluðum, takið eftir spóluðum!!, upp Húsavíkurfjall þannig að það er aldrei að vita hvað honum leggst til...ég held að þetta verði mikil tilbreyting þessi ferð.

heido

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Karlmenn!!!!!

Þessir karlmenn þeir taka sumir hverjir litlum breytingum!

Bjarni á var hraustur maður en mikill stirðbusi. Hann var ekki greindur, latur og mikill matmaður. Hann átti konu og fullt af börnum. Hann var alltaf sníkjandi því að þau voru fátæk. Hann var vanur því að láta konuna bera heybaggana heim en sjálfur sat hann á einni merinni. Eitt sinn þegar konan var ófrísk sat hann á merinnni en lét hana hlaupa með heyið á bakinu við hliðina og sagði “Hlauptu nú, hlauptu nú Gunna, því nú ríð ég hart”.

Björn átti tvær konur en þær voru systur og svaf hann hjá þeim sitt hvora vikuna. Hann átti börn með þeim annaðhvort ár með sitthvorri. Prestum var illa við þetta fyrirkomulag. Hann átti mikið af börnum og það var allt stelpur.

Stefán var faðir þessara manna og hann var mikið hraustmenni. Eitt sinn var hann að koma með heyfarm úr eyjum og bað hann þá kaupakonuna að koma til sín til að stýra á meðan hann fékk sér í nefið en 9 mánuðum seinna ól hún barn. Honum hélst vel á kaupakonum og einu sinni var hann einn með kaupakonuna á engjum og kom þá konan til þeirra með kaffi og kom að þeim í vafasömum athöfnum. Sagði Stefán að það væri nauðsynlegt að hafa kaupakonurnar góðar og hann skyldi muna að sinna konunni um kvöldið þannig að hún þyrfti ekki að vera að gera mál úr þessu.

mánudagur, júlí 18, 2005

Helgin búin

Jæja, þá er helgin búin og komin önnur endemis vinnuvikan...kvarta þó ekki mikið því að mér finnst meira en fínt að vera í þessari vinnu...en alltaf er þó gott að gera eitthvað annað en að vinna. Ég fór vestur á helginni í miklum fjallgönguhug þannig að ég dröslaði Möggu frænku með mér út og suður uppi á fjöllum og það var mjög gaman...verð þó að viðurkenna að það voru þreyttir og blautir ferðalangar sem að komu heim eftir um 4-5 tíma göngu. Kvöldið fór síðan í að syngja og horfa á latabæ með litlu frænku á meðan mamma hennar og pabbi skelltu sér út að borða og það var nú ekki leiðinlegt. Gærdagurinn fór síðan í heimsóknir, fékk skutl í Borgarnes og þaðan var tekin rúta í bæinn. Þessi vika snýst síðan um að vinna, fara í ræktina og hitta vinina!!! Jæja nóg blaður í bili.
heido

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Margur er skrýtinn

Gamansaga. Maður bjó þar sem vatn með silungsveiði var fyrir framan bæinn hans. Hann átti stóran hest sem að hét Moldi. Einn daginn fann hann svo stóra lús í rúminu að hann fór á henni og reiddi hestinn fyrir framan sig.

Gamansaga. Maður spurði eitt sinn kunningja sinn að því hvort að hann vissi að flói væri kallaður slíku nafni. Það vissi hinn ekki. Maðurinn sagðist einu sinni hafa þurft að fá ferju yfir Þjórsá og fór hann heim til ferjumannsins en hann var ekki heima. Konan hans var heima og var í vandræðum og sagðist hún ekki komast inn í bæinn því að hann væri fullur af fló. Spurði hann þá hvort að hún væri ekki búin að ná í flóadrottninguna en hún hafði aldrei heyrt á slíkt minnst. Hann fór inn og settist á bakið á drottningunni og hún flaug með hann út yfir Þjórsá og síðan heitir það flói.

Það er komin sól úti!! slíkt hefur nú ekki gerst lengi...hundadagar byrjuðu í gær og veðrið á þá að taka breytingum frá því sem það var fyrir þann tíma þannig að allt horfir þetta nú til réttrar áttar...ekki satt!!! við vonum allavega það besta þar sem senn dregur nær langþráðu sumarfríi!!!

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Geggjað

Var að hlusta á þessa vísu...mér finnst hún æðisleg!!!

Rauða kusa rekur við
rétt um miðaftanið
hún hefur lengi haft þann sið
það er ljótur vani.
vani, vani, vani, trumb, trumb

Sumarið

Ég var í skelfingu og mikilli angist að uppgötva að sumarið er að verða búið!!! Að mínu mati hefur það reyndar aldrei komið þar sem hér er stanslaus rigning...En ég sé með lítilsháttar hryllingi að skólinn togast nær og nær...Undanfarna tvo mánuði hef ég unnið eins og vitlaus til að geta fengið mér þriggja vikna kærkomið frí í ágúst áður en ég byrja aftur í skólanum. Reyndar fer fríið í að passa litlu tveggja ára frænku mína á meðan systir mín er að vinna. Þrátt fyrir allan hrylling hlakkar mig til að klára kennsluréttindin og byrja í námsráðgjöfinni, held að þetta verði bara skemmtileg og erfið blanda í vetur. Annars er lítið sem að gerist í mínu lífi nema að vinna, sofa, sauma, borða, tala og fara í ræktina. Ég er reyndar orðin húkt á ræktinni og er með bömmer yfir að vera að fara í frí þar í 3 vikur...verð að vera dugleg þegar ég kem til baka!!

heido

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Halló

Vitið þið það að ég var að komast að því (hafði ekki hugsað út í það áður) að ég á hvorki meira né minna en þrettán gæludýr...Jú, ég á hana golsu, hvítu kollu, gulu kollu, frúna, svört, gránu, hvíta buffala, svörtu buffala, sauð og gemsu. Þetta eru jú allt kindurnar mínar sem að ég þarf núna að finna samastað fyrir á hverju hausti allavega þangað til ég get orðið mér úti um lítil fjárhús og lítinn blett en í vetur verða þær hjá frænku minni líkt og þær voru í smá tíma í vor. Síðan á ég Carmen, sæta, freka 8 ára gamla læðu. Og....á síðustu dögum var ég að bæta í flotann minn tveimur kanínuungum!!! Annar unginn er svartur með hvítt nef og hefur fengið nafn þaðan sem hann kemur og heitir Snabbi, hinn er hvítur með svart nef, svartar fætur og svart skott og heitir ekki neitt, einhverjar uppástungur?????? En nóg um þetta í bili, er farin að vinna

heido

mánudagur, júlí 11, 2005

Gaman, gaman

Greinilegt er að þetta er allt saman að virka...mjög gaman...hinsvegar er mér ekki til setunnar boðið þar sem ég verð víst að halda áfram að vinna...alltaf stuð hér á árnastofnun innan um drauga, forynjur og gott fólk.

Það tókst

Þetta tókst, með stafsetningarvillum af ýmsum gerðum, þannig að núna get ég farið að blogga þökk sé konunni með kvefið.

Prufublogg með meiru

Fékk upphringinu í morgun frá konu með kvef (mikið kvef) varðandi það hvort að hún ætti ekki að skella mér í umheim annarra bloggara og vippa einni bloggsíðu fram úr erminni. Líkt og venjulega heillast ég af tækifærum ýmisskonar og taldi þetta bara vera upplagt og er því að prófa þessa list núna og gaman verður að sjá hvað gerist. Ýti á publish...Ýt!